Um CLARIN-IS

Ísland hefur verið í tengslum við CLARIN í allmörg ár. Ísland komst inn í samstarfshóp undirbúningsfasa CLARIN árið 2010, en án fjárhagslegs stuðnings. Síðan CLARIN ERIC var komið á fót hafa íslenskir fræðimenn verið í samskiptum við embættismenn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að tala fyrir þátttöku Íslands í samstarfinu. Þótt Ísland væri ekki aðili að CLARIN ERIC var það með í norræna CLARIN-netinu, Nordic CLARIN Network, frá 2014-2017, og íslenskir fræðimenn tóku þátt í ýmsum fundum og vinnustofum sem netið skipulagði. Í júní 2017 stóð Nordic CLARIN Network fyrir vinnustofu í Háskóla Íslands um hugsanlega aðild Íslands að CLARIN. Fulltrúar fimm íslenskra stofnana sem búa yfir mállegum gögnum eða nýta þau tóku þátt í vinnustofunni, auk fulltrúa frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Rannsóknamiðstöð Íslands. Varaforseti CLARIN, Bente Maegaard, og landsfulltrúar Svíþjóðar og Finnlands kynntu þar CLARIN fyrir fundarmönnum.

Í október 2016 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra sérstakan stýrihóp íslenskrar máltækni sem fól þremur sérfræðingum að semja ítarlega verkáætlun um uppbyggingu íslenskrar máltækni. Verkáætlunin var afhent ráðherra í júní 2017, og í nóvember sama ár ákvað ný ríkisstjórn að hrinda henni í framkvæmd og fjármagna hana næstu fimm ár. Í verkáætluninni er sérstakur kafli um CLARIN þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að Ísland gerist aðili að CLARIN ERIC. Þar er útskýrt hvernig aðild myndi gagnast Íslandi, með aðgangi að margvíslegum búnaði og gögnum, svo og að sérþekkingu á ýmsum sviðum. Innan máltækniáætlunarinnar stendur til að þróa margs kyns gögn og búnað, og það er mjög mikilvægt að gerð, lýsing og varðveisla þessara málfanga fylgi viðurkenndum stöðlum. Í verkáætluninni er bent á að CLARIN geti veitt ómetanlegan stuðning í þessum málum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið féllst á þessa tillögu og ákvað að fjármagna þátttöku Íslands í CLARIN ERIC. Það kom þó í ljós að nauðsynlegt væri að breyta lögum til að Ísland geti orðið fullgildur aðili. Í stað þess að bíða eftir þeirri lagabreytingu var ákveðið að sækja um áheyrnaraðild. Umsókn Íslands um áheyrnaraðild (observership) var samþykkt á allsherjarfundi CLARIN ERIC 22. nóvember 2018. Í júní 2019 voru ný lög um samtök evrópskrar rannsóknarinnviða samþykkt á Alþingi. Í framhaldi af því ákvað ráðherra að Ísland sækti um fulla aðild að CLARIN ERIC.

Ráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að vera fulltrúi Íslands gagnvart CLARIN ERIC og leiðandi aðili í íslenskum CLARIN-landshópi. Ásgerður Kjartansdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu, verður fulltrúi Íslands á allsherjarfundi (General Assembly) CLARIN ERIC, og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, hefur verið útnefndur landsfulltrúi (National Coordinator) CLARIN á Íslandi.