Fréttir

 

14. janúar 2020

Samkvæmt samningi Almannaróms og SÍM (Samstarfs um íslenska máltækni) er gert ráð fyrir að afurðir máltækniverkefnisins verði vistaðar í varðveislusafni íslensku CLARIN-miðstöðvarinnar. Þannig verða þær öllum aðgengilegar, m.a. gegnum Virtual Language Observatory og leitarvélar. Í dag urðu þau tímamót að fyrstu afurð verkefnisins var hlaðið upp í varðveislusafnið. Það er tókari (tokenizer) þróaður af Miðeind ehf. Fleiri afurðir, bæði hugbúnaður og gagnasöfn, eru væntanlegar á næstunni.

 

9. janúar 2020

Auglýst hefur verið eftir útdráttum fyrir ársráðstefnu CLARIN sem verður haldin í Madrid dagana 5.-7. október. Aðalefni ráðstefnunnar að þessu sinni er „Málföng, tól og þjónustur fyrir þverfaglegar rannsóknir“ (Language resources, tools and services for interdisciplinary research) en ýmis önnur efni koma líka til greina. Útdráttum skal skila gegnum EasyChair ekki síðar en 14. apríl. Sjá ráðstefnukall á heimasíðu CLARIN ERIC. 

 

21. nóvember 2019

Nú má lesa fréttaskot CLARIN ERIC fyrir nóvember á vefnum. Þar er m.a. að finna stutta frásögn af ráðstefnunni Er íslenskan góður „bissness“ sem haldin var 16. október. 

 

18. nóvember 2019

CLARIN-IS hefur nú verið skráð sem C-setur sem merkir að þangað er hægt að sækja lýsigögn. Lýsigögn frá CLARIN-IS eru því farin að birtast þegar leitað er í Virtual Language Observatory. Með lýsigögnunum fylgir tengill á viðkomandi gögn eða hugbúnað.

 

Fréttasafn