Fréttir

 

30. mars 2020

Skilafrestur útdrátta fyrir ársráðstefnu CLARIN sem verður haldin í Madrid dagana 5.-7. október hefur verið framlengdur. Aðalefni ráðstefnunnar að þessu sinni er „Málföng, tól og þjónustur fyrir þverfaglegar rannsóknir“ (Language resources, tools and services for interdisciplinary research) en ýmis önnur efni koma líka til greina. Útdráttum skal skila gegnum EasyChair ekki síðar en 28. apríl. Sjá ráðstefnukall á heimasíðu CLARIN ERIC. 

 
3. mars 2020

Á ársráðstefnum CLARIN eru venjulega tekin viðtöl við nokkra þátttakendur - boðsfyrirlesara, verðlaunahafa, nýliða og aðra. Á ársráðstefnunni í Leipzig í haust var tekið viðtal við Eirík Rögnvaldsson, landsfulltrúa CLARIN á Íslandi, í tilefni af áheyrnaraðild (nú fullri aðild) landsins að CLARIN ERIC. Viðtalið hefur nú verið birt á YouTube-rás CLARIN ERIC.

 

27. febrúar 2020

Umsókn Íslands um fulla aðild að CLARIN ERIC, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi 5. febrúar, hefur nú hlotið rafrænt samþykki allsherjarþings samtakanna. Ísland er því fullgildur aðili að CLARIN ERIC frá 1. febrúar 2020. Þar með er gamalt baráttumál í höfn en eins og fram kemur annars staðar hér á vefnum hefur Ísland verið í tengslum við CLARIN í 10 ár og getur nú loks tekið fullan þátt í starfinu. CLARIN-miðstöðin á Árnastofnun er í uppbyggingu og er þegar farin að taka við gögnum, m.a. afurðum máltækniverkefnis stjórnvalda. Þessi gögn eru aðgengileg í varðveislusafni miðstöðvarinnar og þaðan er lýsigögnum þeirra dreift þannig að allir sem tengjast CLARIN geta fundið upplýsingar um þau í sýndarsafni málfanga (Virtual Language Observatory) og nálgast þau með þeim skilmálum sem settir hafa verið.

  

Fréttasafn