Íðorðabankinn

Íðorðabankinn hefur að geyma sérhæfðan hugbúnað fyrir skráningu og birtingu orðasafna. Höfundar fá aðgang að skráningarkerfi til þess að vinna að söfnum sínum og bætast þau síðan í hóp annarra orðasafna sem almennir notendur orðabankans geta leitað í. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gerir samning við höfunda orðasafna um að þeir fái endurgjaldslausan aðgang að skráningarkerfinu gegn því að stofnunin megi birta orðasöfnin í orðabankanum á Netinu. Höfundar hafa eftir sem áður allan rétt til verka sinna og geta birt þau hvar og hvenær sem þeir vilja. Hægt er að nota Íðorðabankann á tvennan hátt:

Um Íðorðabankann

Hlutverk Íðorðabankans

Eitt af hlutverkum Íðorðabankans er að samræma orðanotkun innan skyldra og óskyldra greina. Hann á að safna fræðiheitum og sameina þau þannig að ekki séu á kreiki mörg heiti um sama fyrirbærið. Íðorðabankinn sinnir þessu hlutverki. Hann getur veitt yfirsýn yfir íslenskan íðorðaforða og nýyrði úr almennu máli, sem eru efst á baugi, og stuðlað með því að auknu samræmi í notkun orðanna svo og skilgreiningunum á þeim.Auk þess veitir hann aðgang að íslenskum þýðingum á erlendum íðorðum, og jafnframt því aðgang að hugtakaskilgreiningum íðorða á íslensku og fleiri tungumálum. Íðorðabankinn getur því gagnast vel öllum þeim sem fjalla um sérfræðileg efni, þýðendum, kennurum, nemendum, fjölmiðlafólki, opinberum stofnunum, fyrirtækjum svo og hvers kyns áhugafólki, og síðast en ekki síst orðabókarhöfundum þar sem hann er sérstaklega ætlaður til orðabókasmíða.

Rekstur

Íðorðabankinn (sem áður nefndist Orðabanki Íslenskrar málstöðvar) var opnaður á vefnum 15. nóvember 1997, í tengslum við dag íslenskrar tungu. Íslensk málstöð annaðist orðabankann fram til 1. september 2006 en þá voru Íslensk málstöð, Orðabók Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnun Sigurðar Nordals og Örnefnastofnun sameinaðar í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Innra skipulag Íðorðabankans

Skipulag orðabankans er miðað við að efnið í honum margfaldist og verði sífellt fjölbreytilegra. Bankinn skiptist í tvo meginhluta, vinnsluhluta og birtingarhluta.

Almennir notendur hafa engan aðgang að vinnsluhluta orðabankans. Þar er efninu safnað saman til úrvinnslu, bæði orðasöfnum í frumvinnslu og söfnum í endurskoðun. Vinnsluhlutinn skiptist í mismunandi svæði sem hvert og eitt tilheyrir höfundi tiltekins orðasafns (einstaklingi eða t.d. orðanefnd) og engum öðrum. Þegar vinnu við gerð orðasafns lýkur flytur orðabankastjóri það í birtingarhlutann; raunar er unnt að birta einstaka hluta orðasafns jafnóðum og þeir eru tilbúnir. Birtingarhluti orðabankans er hinn sýnilegi orðabanki, þ.e. sá hluti bankans sem almennir notendur hafa aðgang að. Með skjótvirku leitarkerfi má finna þar íslensk eða erlend orð, í einu eða fleiri orðasöfnum í einu, fá margs konar upplýsingar um hvert flettiorð, bæði á íslensku og þeim tungumálum öðrum sem um ræðir.

Efni Íðorðabankans

Samband

  • Ágústa Þorbergsdóttir
  • Verkefnisstjóri
  • Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  • Laugavegi 13, IS-101 Reykjavík
  • Sími: +354-525-4440
  • Netfang: agustath@hi.is