Ritmálssafn Orðabókar Háskólans geymir dæmi um notkun orða úr íslenskum ritum. Þau spanna tímabilið frá miðri 16. öld til loka 20. aldar. Notkunardæmin, sem sýna orðin í samhengi, eru flest úr prentuðum bókum eða blöðum en einnig úr handritum frá síðari tímum. Við efnissöfnunina var nær allt prentað mál frá upphafi fram á 19. öld lesið og orðtekið auk fjölmargra rita frá 19. og 20. öld. Elsta ritið, sem dæmum var safnað skipulega úr, er þýðing Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540, fyrsta bókin sem prentuð var á íslensku.
Dæmunum er skipað undir uppflettiorð. Í safninu eru um 2,5 milljónir dæma um nærri 700 þúsund orð. Um meirihluta orðanna er bara eitt dæmi en um algeng orð eru fleiri dæmi og í einstaka tilvikum skiptir dæmafjöldinn hundruðum og jafnvel þúsundum.