ISLEX - íslensk-norrænar orðabækur

http://hdl.handle.net/20.500.12537/10

 

ISLEX er margmála orðabókarverk á vefnum með íslenskum uppflettiorðum og þýðingum á dönsku, sænsku og norsku (bókmáli og nýnorsku). ISLEX er samstarfsverkefni fræða- og háskólastofnana á Norðurlöndunum og felur í sér mikilvægt framlag til þess að styrkja menningartengsl og efla málskilning á milli Norðurlandaþjóðanna.

 ISLEX er hægt að nýta á tvo vegu:

  • Leita - notendaviðmót á íslensku, færeysku, dönsku, norsku, sænsku og finnsku.
  • Sækja með CC-BY-NC-ND leyfi.

Einnig er hægt að sækja hljóðskrár með framburði allra íslenskra uppflettiorða og um 700 orðasambanda á þrenns konar sniði (MP3OGGWAV).

Um ISLEX

ISLEX er samstarfsverkefni fræða- og háskólastofnana á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Færeyjum. Þær eru Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁ) í Reykjavík, Institutionen för svenska språket við Háskólann í Gautaborg, Institutt for lingvistiske, litterære og estetiske studier við Háskólann í Bergen og Det Danske Sprog- og Litteraturselskab í Kaupmannahöfn.

Íslenska ritstjórnin ber ábyrgð á viðfangsmálinu (íslensku) og mótun og þróun gagnagrunnsins fyrir ISLEX. Vinna við markmálin er í umsjón og á ábyrgð ritstjórna í hverju landi fyrir sig.

ISLEX-orðabókin var opnuð síðla árs 2011. Orðabókin er ókeypis á vefnum. Við ritstjórnina er notaður veftengdur gagnagrunnur sem er sérstaklega hannaður fyrir verkefnið, en unnið hefur verið að orðabókinni í öllum löndunum samtímis. ISLEX-orðabókin er fyrsta rafræna orðabókin sem tengir saman svo mörg norræn mál. Hún hefur að geyma um 50,000 flettur og þýðingar á þeim. Orðabókin lýsir íslensku nútímamáli þar sem áhersla er lögð á að sýna fjölbreytileg orðasambönd, fasta orðanotkun og dæmi með þýðingum á markmálin. Kostir rafrænnar miðlunar eru látnir njóta sín og orðabókarlýsingin er studd myndefni og hljóðdæmum. Tenglar eru í beygingar allra beygjanlegra uppflettiorða og framburður íslensku uppflettiorðanna er gefinn sem hljóðskrár.

Að nota ISLEX

Á vefsíðu orðabókarinnar er boðið upp nokkra leitarmöguleika, og þar er m.a. valið markmálið sem þýðingarnar birtast á. Þar með fæst jöfnum höndum innsýn í samhengi íslensku við tiltekið markmál og yfirsýn um innbyrðis samhengi tungumálanna á Norðurlöndum.

ISLEX er ætlað að þjóna þörfum ólíkra notendahópa. Sem íslensk-skandinavísk orðabók miðast hún annars vegar við þarfir danskra, sænskra og norskra notenda, m.a. vegna þýðinga úr íslensku og náms og kennslu í íslensku á Norðurlöndunum. Hins vegar nýtist hún íslenskum notendum sem vilja finna viðeigandi orðalag á tilteknu markmáli. ISLEX felur ennfremur í sér mikilvægt framlag til þess að styrkja menningartengsl og efla málskilning á milli Norðurlandaþjóðanna.

Tenglar á ISLEX í einstökum löndum

Samband

Hafa samband við ISLEX