CLARIN ERIC

CLARIN ERIC er eitt af rannsóknarinnviðaverkefnum Evrópusambandsins – CLARIN stendur fyrir „Common Language Resources and Technology Infrastructure“ og ERIC stendur fyrir „European Research Infrastructure Consortium“. CLARIN ERIC starfar samkvæmt samþykktum sem hafa verið staðfestar af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Meginmarkmið CLARIN ERIC er að öll stafræn málföng (language resources) og búnaður frá allri Evrópu (og víðar) verði aðgengileg með einni innskráningu (single sign-on) á netið, til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og innan máltækni.

CLARIN ERIC stefnir að því að veita einfaldan og öruggan aðgang að stafrænum málföngum (rituðum textum, hljóðefni, myndefni og margmiðlunarefni) þannig að unnt sé að finna þau, kanna þau, vinna með þau, greina þau og tengja þau saman, hvar sem þau er að finna.

CLARIN-IS

Ísland gerðist áheyrnaraðili (observer) að CLARIN ERIC 1. nóvember 2018. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi að vera leiðandi aðili (leading partner) í landshópi (national consortium) Íslands í verkefninu og tilnefnt Eirík Rögnvaldsson prófessor emeritus sem landsfulltrúa (national coordinator).

Árnastofnun mun koma upp tæknilegri þjónustumiðstöð (Service Providing Centre, CLARIN B-centre) þangað sem unnt verður að sækja ákveðna þjónustu og fá aðgang að gögnum og þekkingu. Flestar helstu stofnanir sem málið varðar hafa staðfest þátttöku í landshópi CLARIN.