Fréttir

 3. apríl 2019

Samúel Þórisson forritari hóf störf við CLARIN-IS í dag. Meginverkefni hans fyrst um sinn verður að setja sig inn í tæknimál CLARIN og vinna síðan að því að koma upp tæknilegri þjónustumiðstöð (CLARIN B-centre) hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

6. febrúar 2019

Vefur CLARIN-IS opnaður

Vefur CLARIN-IS hefur nú verið opnaður. Vefurinn er allur bæði á íslensku og ensku. Hann er enn í smíðum og efni mun bætast við smátt og smátt á næstunni. Trausti Dagsson verkefnisstjóri á Stofnun Árna Magnússonar á heiðurinn af uppsetningu og útliti vefsins en hann fylgir að miklu leyti stílsniði CLARIN.

 

29. janúar 2019

Íslenskur landshópur í undirbúningi

Myndun íslensks CLARIN-landshóps stendur nú yfir. Landsfulltrúi hefur fundað með fulltrúum átta líklegra þátttökustofnana og borið undir þá drög að viljayfirlýsingu um samstarf. Fulltrúar fimm stofnana hafa þegar staðfest að þeir munu undirrita viljayfirlýsinguna og hinar þrjár stofnanirnar eru jákvæðar.

 

28. janúar 2019

Ársráðstefna CLARIN - ráðstefnukall

Auglýst hefur verið eftir útdráttum fyrir ársráðstefnu CLARIN sem að þessu sinni verður haldin í Leipzig í Þýskalandi dagana 30. september - 2. október. Aðalefni ráðstefnunnar að þessu sinni er  „Rannsóknir í hug- og félagsvísindum sem byggjast á málföngum og máltækni“ (Humanities and Social Science research enabled by language resources and technology) en ýmis önnur efni koma líka til greina. Útdráttum skal skila gegnum EasyChair ekki síðar en 15. apríl. Sjá ráðstefnukall á heimasíðu CLARIN ERIC.